Varðandi sjóstangaveiðimót 2017

Umræða hefur komið fram vegna boðaðs félagsmóts Sjóve sumarið 2017 en eins og mörgum er kunnugt um þá liggja inni stjórnsýslukærur vegna ákvörðunar Fiskistofu á synjun heimildar fyrir úthlutun á afla til að mótshald geti átt sér stað þetta sumarið. Ákvörðunin styður við nýbreytta reglugerð sem telst að okkar áliti verulega íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun. Staða mála í dag er á þá leið að ráðuneytið óskaði eftir umsögn frá Fiskistofu og hefur hún frest til að skila inn svörum í dag 21.júní. Eftir að umsögn Fiskistofu hefur borist ráðuneytinu verður félögunum gefinn kostur á að gera athugasemdir við umsögn Fiskistofu.

Í millitíðinni hefur stjórn SJÓL og Bonafide lögmönnum haldið samráðsfundi með ráðuneytinu og Fiskistofu. Því miður hafa mótaðilar okkar ekki fengist til að fá slíka fundi samþykkta með fundargerð og sama á við um sáttanefnd sem stofnuð var til að leysa Fiskistofu undan kærunni og veita sjóstangaveiðifélögunum heimild til veiða.

Á umræddum fundi sáttanefndar var SJÓL boðin sáttarleið sem metin var skynsamleg og hljómaði þannig að ráðuneytið myndi stofna til vinnuhóps sem færi yfir umrædda reglugerð fyrir veiðiárið 2018 og varðandi veiðiárið 2017 mundi Fiskistofa velja eitt félag og fá skýringu við nokkrum spurningum með stuttri greinagerð. Sjóve varð fyrir valinu og voru þær skýringar sem Fiskistofa óskaði eftir útskýrðar í samráði við okkar lögfræðistofu sem og SJÓL. Í kjölfarið veitti Fiskistofa Sjóve heimild en þegar átti að taka fyrir næstu félög breyttist tónninn í Fiskistofu og fóru þeir strax aftur í skotgrafirnar og í óþökk ráðuneytisins sem taldi að aðilar hefðu náð sátt um að leysa veiðiárið 2017 og taka svo upp viðræður um framhaldið.

Sjóve sótti eftir afstöðu formanna félaga og SJÓL sem bar erindið upp við Bonafide lögmenn varðandi að halda sjóstangaveiðimót þrátt fyrir kæruferlið. Niðurstaða lögmanna var sú að slíkt mótshald mundi ekki hafa nein áhrif á kæruferlið enda er það óbreytt og öllum ljóst að þetta hafi verið gjörningur hjá Fiskistofu um að skapa óeiningu milli félagana og vona ég svo innilega að þeim takist það ekki.

Auglýsingar
Þessi færsla var birt undir Óflokkað. Bókamerkja beinan tengil.