Árið sem senn er að líða

Kæru félagsmenn.

Nú er senn að líða árið þar sem engin landsmót voru haldin innan SJÓL og einungis eitt félagsmót, en slík staða hefur ekki áður komið upp frá stofnun SJÓL og í raun ekki í rúmlega 50 ár eða frá upphafi umræddra félagssamtaka innan SJÓL um sjóstangaveiði sér og öðrum til skemmtunar.

Orsökina má rekja til ákvörðunar Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis að samþykkja nær blindandi tillögu frá Fiskistofu um enn eina reglugerðabreytingu er varðar veitingu veiðiheimildar án samráðs eða ósk um athugasemdir frá hagsmunaaðilunum sem eru meðal annars sjóstangaveiðifélögin innan SJÓL. Frá því að ráðherra fól Fiskistofu umsjón með leyfisveitingu hafa nær árlega verið gerðar reglubreytingar til að leiða félagssamtökin nær hinum almenna fyrirtækjarekstri eins og tíðkast í ferðamennsku og strandveiðum en ekki félagssamtaka. Þegar ljóst var að ekki stæði til að endurskoða fyrri ákvörðun hjá ráðuneytinu var ákveðið að leggja inn stjórnsýsluákvörðun. Stofnanirnar nýttu sér kerfisreglur til hins ítrasta sem varð til þess að niðurstaða kærunnar barst ekki fyrr en seint í september. Í framhaldi var lögð inn kvörtun til Umboðsmanns Alþingis sem sá ástæðu til þess að skoða málið nánar og sú vinna enn í gangi. Stjórn SJÓL hafði einnig sóst eftir fundi með ráðherra en vegna stjórnarslita varð nokkur töf á slíkum fundi sem verður í janúar 2018.

Sumir félagsmenn hafa spurt hvort ekki sé hægt að verða bara við öllum óskum Fiskistofu. Svarið við slíkri spurningu er jú og í raun alveg sjálfsagt svo fremi sem sama stofnun þekki sitt hlutverk og starfi innan meðalhófsreglunnar sem og að gæta þess að hlutverk félagssamtaka sem stunda tvö sjóstangaveiðimót á ári fái það svigrúm til að sinna slíkri félagsstarfssemi eins og almennt þekkist hjá öðrum félögum, og í raun vel skilgreint samkvæmt lögum.

Þetta hefur jú verið mjög annasamt ár hjá SJÓL og því miður ekki í anda þeirrar gleði sem við þekkjum helst til, með því að mætast víða um landið og bleyta öngulinn aðeins sér og öðrum til skemmtunar en það er mín hjartans von að aðilar geti náð saman og að nýja árið geri félagsmönnum kleift að hittast og njóta góðra stunda saman.

Með þessum orðum óskar stjórn SJÓL öllum velfarnaðar á nýju ári og bestu þakkir fyrir árið sem senn er að líða.

Með vinsemd og virðingu.
Sigurjón

 

Auglýsingar
Þessi færsla var birt undir Óflokkað. Bókamerkja beinan tengil.